Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, mun leiða lista Miðflokksins í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Miðflokkurinn býður fram í fyrsta skipti í Kópavogi, í sveitarstjórnarkosningum í maí. Í tilkynningu segir að markmiðið sé að ná fram betri árangri fyrir alla íbúa Kópavogsbæjar.

Þá segir einnig að Geir hafi áratuga reynslu á sviði stjórnunar, fjármála, reksturs og félagsmála. Geir starfaði líkt og áður sagði innan knattspyrnuhreyfingarinnar frá 1981 og í Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) frá 1992, sem framkvæmdastjóri KSÍ 1997-2007 og formaður KSÍ 2007-2017. Hann hefur setið í nefndum fyrir Knattspyrnusamband Evrópu UEFA frá 1998 og Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA frá 2007 og sinnir nú sérstökum verkefnum fyrir Knattspyrnusamband Evrópu.

Í tilkynningunni er haft eftir Geir að eitt stærsta verkefnið á kjörtímabilinu verði að lækka álögur á bæjarbúa og bæta þjónustu bæjarins við íbúana. „Við viljum ná betri árangri í fjármálum Kópavogsbæjar þannig að lækka megi útsvarið úr 14,48% í 14% á kjörtímabilinu“ segir Geir. „Við leggjum áherslu á að í menntamálum standi nemendum til boða kennsla eins og best gerist ásamt því að vinna að stofnun framhaldsskóla í efri byggðum bæjarins og að bæjarbúar á öllum aldri fái notið fjölbreyttra menningar- og listviðburða og líflegs íþróttalífs í bænum, sér til skemmtunar og heilsubótar.“

Miðflokkurinn hyggst kynna ítarlega stefnu sína og framboðslista á næstunni.