Guðjón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hagvagna, hefur látið af störfum samkvæmt heimildum Túrista. Hjörvar S. Högnason hefur tekið við starfinu en hann hefur leitt Reykjavík Sightseeing síðustu ár. Félögin eru bæði í eigu Pac 1501 ehf.

Hagvagnar eru eitt stærsta hópbifreiðafyrirtæki landsins. Reykjavík Sightseeing sérhæfir sig í rútuferðum með ferðafólk og býður m.a. upp á sætaferðir milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur undir vörumerkinu Airport Direct. Félögin eru sem fyrr segir bæði í eigu Pac 1501 ehf., sem er eigu framtakssjóðsins Horns III í rekstri hjá Landsbréfum.

Guðjón Ármann var ráðinn sem framkvæmdastjóri Hagvagna árið 2017 en hann starfaði áður sem forstöðumaður hlutabréfa hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka.

Hjörvar hóf störf sem framkvæmdastjóri Reykjavík Sightseeing árið 2016. Hann hafði áður starfað hjá Iceland Travel og þar áður sem svæðisstjóri Icelandair fyrir Bretland og Írland.