Guðjón Ólafsson hefur verið ráðinn sem birtingastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum. Guðjón hefur undanfarin ár starfað sem viðskipta- og sölustjóri á auglýsingadeild Pressunnar. Áður starfaði hann sem blaðamaður á Pressunni.

„Guðjón er kærkominn viðbót við þann frábæra mannauð sem hér starfar,“ segir Ingvi Jökull Logason, framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta. „Það er gríðarlegur fengur fyrir okkur að fá Guðjón til starfa því þrátt fyrir ungan aldur hefur hann mikla reynslu, bæði af auglýsingum og blaðamennsku.”

Guðjón er með BA-gráðu í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Gaui, eins og hann er gjarnan kallaður, er uppalinn Eyjapeyi sem hefur dálæti á að hreyfa sig og reynir af fremsta megni að neita sér um sykur.

Hann hefur áhuga á tónlist og knattspyrnu og á nokkra leiki að baki með meistaraflokki ÍBV, enda sonur Ólafs Sigurvinssonar fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu og bróðursonur Ásgeirs Sigurvinssonar, eins ástsælasta knattspyrnumanns Íslands. Unnusta Guðjóns er Hrafnhildur Ylfa Magnúsardóttir og eiga þau einn son.