Borgarleikhúsið hefur ráðið Guðnýju Steinsdóttur til starfa sem markaðsstjóra, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Guðný hóf störf hjá Borgarleikhúsinu í byrjun júní og er nú að leggja lokahönd á markaðs- og kynningarefni næsta leikárs, ásamt samstarfsfólki.

Undanfarin ár hefur hún starfað sem markaðsstjóri Mjólkursamsölunnar og stýrði þar stefnumótun, markaðssetningu, þróun og uppbyggingu fjölda vörumerkja. Þar áður starfaði Guðný sem birtingarstjóri hjá Birtingarhúsinu og sem sérfræðingur í markaðsrannsóknum hjá PricewaterhouseCoopers.

Guðný er með BA próf í sálfræði og meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Guðný Steinsdóttir:

„Borgarleikhúsið er lifandi og framsækið leikhús og ég hlakka til að taka þátt í því metnaðarfulla og flotta starfi sem hér er unnið. Ég hef lengi starfað við markaðsmál og finnst gríðarlega áhugavert að fá nú tækifæri til að starfa með reynslumiklu fólki í tengslum við upplifun og sviðslistir. Í sítengdum heimi er frábært að fá að upplifa nálægðina sem verður til í leikhúsinu og við hjá Borgarleikhúsinu erum spennt að kynna fjölbreytt og skemmtilegt leikár þar sem allir ættu að geta fundið sýningar við sitt hæfi.“

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins:

„Enn þéttast raðirnar og það er mikið gleðiefni að fá Guðnýju í okkar hóp. Hér er á ferð sérlega reynslumikil og vönduð manneskja sem á undanförnum árum hefur starfað að markaðssetningu og þróun nýrra vörumerkja. Borgarleikhúsið er sannarlega á flugi og það er með tilhlökkun sem við horfum til framtíðar með nýjum og öflugum liðsfélaga. Ég býð Guðnýju hjartanlega velkomna.“