Guðrún Árný Guðmundsdóttir var nýverið ráðin sem mannauðsleiðtogi hjá Malbikstöðinni og hefur nú þegar tekið til starfa. Guðrún þekkir vel til starfsemi Malbikstöðvarinnar þar sem hún starfaði hjá fyrirtækinu á árunum 2014 – 2020.

Á árunum 2021 – 2022 var hún stöðvarstjóri hjá Osteostrong á Íslandi en á árum áður starfaði hún hjá A4 og sinnti þar tollskýrslugerð og almennum skrifstofustörfum.

Guðrún hefur sinnt ýmsum störfum í gegnum tíðina en hún var kórstjóri og söngkennari hjá Söngskólanum Domus Vox og Stúlknakór Reykjavíkur. Einnig var hún kórstjóri Samkórs Reykjavíkur og gegndi hlutverki ritara í stjórn Félags íslenskra kórstjóra í nokkur ár.

Guðrún er með meistarapróf í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst en í náminu lagði hún sérstaka áherslu á þjónandi forystu. Eins er Guðrún með LSRM söngkennarapróf á vegum Royal School of Music, en prófið tók hún og útskrifaðist frá Söngskólanum í Reykjavík.

„Það verður nú bara að segjast að ég er himinlifandi að fá Guðrúnu aftur til starfa enda öflug manneskja, bæði í vinnu og leik. Hún á eftir að halda vel utan um mannauð fyrirtækisins og er sérstaklega mikil þörf á því núna þar sem Malbikstöðin er sífellt að stækka og eflast og starfsfólki þar af leiðandi að fjölga. Einstaklingar sem hafa hug á því að vinna með okkur í malbikinu geta verið þess fullvissir um að það verður vel tekið á móti þeim. Því get ég lofað,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.

„Eins og segir í auglýsingu Malbikstöðvarinnar og þar áður í lagi þeirra Magnúsar Eiríkssonar og Pálma Gunnarssonar þá er hver vegur að heiman vegurinn heim. Mér líður þannig með að vera komin aftur til starfa hjá fyrirtækinu og er tilbúin í að takast á við öll þau verkefni sem starfið felur í sér,“ segir Guðrún Árný Guðmundsdóttir, mannauðsleiðtogi Malbikstöðvarinnar.