Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ráðið Guðrúnu Ásu Björnsdóttur lækni sem aðstoðarmann sinn. Greint er frá ráðningu hennar á vef stjórnarráðsins. Hún hefur samhliða störfum sínum sem læknir sinnt rannsóknum og kennslu við Háskóla Íslands.

Guðrún Ása er með BS-gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands, MB ChB-gráðu í læknisfræði frá Warwick-háskóla í Bretlandi og leggur stund á doktorsnám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hún er að sérhæfa sig í öldrunarlækningum.

Guðrún Ása hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Læknafélag Íslands. Hún var formaður Félags almennra lækna, sat í stjórn Læknafélags Íslands og útgáfustjórn Læknablaðsins árin 2018-2020. Hún sat í læknaráði Landspítalans árin 2017-2020.

Hún hefur setið í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknafélags Íslands. Hún sat m.a. í samninganefnd Læknafélags Íslands árin 2019-2021 og er nýlega tekin við sem formaður samninganefndarinnar en lætur af þeim störfum nú.

Guðrún Ása er gift Halldóri Benjamín Þorbergssyni og saman eiga þau fjögur börn.