Guðrún Aðalsteinsdóttir rekstrarverkfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar og hefur hún störf í dag. Hún tekur við stöðunni af Ástu Sigríði Fjeldsted sem var ráðin forstjóri Festi, móðurfélags Krónunnar, fyrr í mánuðinum. Þetta kemur fram í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.

Guðrún hefur starfað hjá Krónunni í tæp tvö ár, nú síðast sem forstöðumaður stafrænnar þróunar og umbótaverkefna, þar á undan sem forstöðumaður innkaupa- og vörustýringar.

Guðrún er rekstrarverkfræðingur með M.Sc. frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hún starfaði áður sem forstöðumaður hjá Icelandair á rekstrarsviði þar sem hún var ábyrg fyrir m.a. sölu og þjónustu í flugvélum félagsins, vöruþróun, innkaupum, birgðastýringu og framleiðslu því tengdu.

Hún hefur enn fremur alþjóðlega reynslu frá Nýja-Sjálandi, þar sem hún vann í þrjú ár fyrst sem yfirmaður verkefnastofu og seinna sem yfirmaður ráðgjafar á sviði rekstrarumbóta og stefnumótunar í heilbrigðisþjónustu hjá ráðgjafastofunni Tewhatuora health. Þar áður starfaði hún hjá Novo Nordisk Engineering (NNE) í Kaupmannahöfn við verkefnastýringu og áætlanagerð.

Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi.

„Það er mikill ávinningur og styrkur fyrir Festi að fá Guðrúnu til að leiða Krónuna. Hún þekkir vegferð Krónunnar og sókn á mörgum sviðum s.l. ár einstaklega vel og við treystum henni til að halda því starfi áfram í samstarfi við okkar samhenta og öfluga starfsfólk. Guðrún hefur fjölbreytta og alþjóðlega reynslu ásamt skýrri sýn sem mun nýtast vel í því umhverfi sem við störfum í.“

Guðrún Aðalsteinsdóttir:

„Ég er fyrst og fremst þakklát því trausti sem mér er sýnt að fá að leiða Krónuna og þann góða hóp fólks sem þar starfar. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast Krónunni síðastliðin tvö ár og þekki því af reynslu hversu mikil þekking, kraftur og metnaður býr innan fyrirtækisins. Framundan eru virkilega spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Það eru forréttindi að fá að gera það með frábærum samstarfsfélögum Krónunnar sem og innan samstæðu Festi.“