Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, er nýr formaður Félags atvinnurekenda. Hún var kjörin á aðalfundi félagsins í dag og tekur við af Magnúsi Óla Ólafssyni forstjóra Innness, sem hafði verið formaður síðustu fjögur ár.

Guðrún hefur setið í stjórn Félags atvinnurekenda undanfarin tvö ár, verið framkvæmdastjóri Atlantsolíu frá árinu 2008. Áður var hún aðstoðarfjármálastjóri fyrirtækisins. Guðrún starfaði þar á undan sem fjármálastjóri Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar. Guðrún Ragna er með mastersgráðu í fjármálum frá EADA í Barcelona á Spáni, MBA frá Háskóla Íslands og er viðskiptafræðingur frá HÍ. Hún er gift og á þrjú börn.

„Ég þakka félagsmönnum traustið og hlakka til að taka enn virkari þátt í starfi Félags atvinnurekenda. FA vill veita aðildarfyrirtækjunum góða þjónustu og berst mikilvægri baráttu fyrir virkri samkeppni og hagstæðu rekstrarumhverfi fyrirtækja. Félagið gegnir líka mikilvægu hlutverki við að halda á lofti málstað minni og meðalstórra fyrirtækja, " er haft eftir Guðrúnu Rögnu í tilkynningu frá FA.

Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundinum. Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Innness, var kjörinn meðstjórnandi til eins árs. Lilja Dögg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri LYFIS/apótekasviðs Icepharma, var kjörin meðstjórnandi til tveggja ára.

Auk nýju stjórnarmannanna var Friðrik Ingi Friðriksson, eigandi og forstjóri í Aflvélum, Burstagerðinni og Spodriba, endurkjörinn meðstjórnandi til tveggja ára. Áfram sitja í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2020, þau Anna Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarmaður og eigandi í Hvíta húsinu, og Guðmundur R. Sigtryggsson, framkvæmdastjóri XCO.