Háskóli Íslands og Háskóli norðurslóða hafa gert með sér samstarfssamning um að Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, verði aðstoðarrektor vísinda hjá UArctic til næstu fimm ára.

Með þessu móti verður Háskóli Íslands leiðandi í netverki háskóla norðurslóða en háskólinn á meðal annars einnig fulltrúa í stjórn UArctic.

Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, munu undirrita samninginn á Háskólatorgi þann 30. maí nk. á opnu málþingi um mikilvægi rannsóknasamstarfs á norðurslóðum.

Meðal þeirra sem munu flytja erindi á málþinginu eru Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og formaður Hringborðs Norðurslóða, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi.