Brynja Jónbjarnardóttir, nýr starfsmaður í markaðsteymi Hugsmiðjunnar, kveðst vera mjög ánægð með nýja starfið. „Þetta er frábær vinnustaður, með skemmtilegu fólki og inni á vinnustaðnum fer fram mikil sköpun. Teymið sem við vorum að mynda er mjög skemmtilegt.

Ég er svolítið skipuleggjandinn í teyminu og grúska í tölunum til að finna tækifærin í stafrænni markaðssetningu hjá þeim fyrirtækjum sem við veitum þjónustu. Eitt af hlutverkum mínum er að mynda góðan skilning á vörunni sem fyrirtækin eru að bjóða upp á til þess að setja svo á fót árangursríka herferð. Þegar herferðinni er lokið er svo mikilvægt að finna mælanlegan árangur til þess að komast að því hvað gekk vel og hvað megi gera betur,“ segir Brynja.

Undanfarið eitt og hálft ár hefur Brynja sinnt dæmatímakennslu og afleysingakennslu í hagfræðigreinum við Háskóla Íslands. Samhliða því hefur hún unnið að gerð tveggja fræðigreina ásamt Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, en fræðigreinarnar verða birtar í erlendum tímaritum.

„Við erum að fara kynna aðra fræðigreinina á Þjóðarspeglinum á morgun. Í þeirri grein erum við að fjalla um þjóðhagslegan kostnað ofbeldis. Þetta er allt öðruvísi vinnuumhverfi heldur en ég er að vinna í hjá Hugsmiðjunni en mér þykir mjög skemmtilegt að vera með puttana í þessu líka til þess að viðhalda fjölbreytileika og vera tengd á mörgum vígvöllum,“ segir Brynja. Brynja er einnig meðal stofnenda nýs hagsmunafélags kvenna í hagfræði og er hún stjórnarformaður félagsins. Að sögn Brynju þótti stofnendum félagsins mikil þörf á slíku félagi til þess að styrkja stöðu kvenna innan hagfræðigeirans.

„Við erum nú þegar komin með stóran og flottan hóp af konum úr hagfræði inn í félagið. Í næstu viku munum við halda stofnfund félagsins og kokteilboð. Þetta er ekki hugsað sem tengslafélag, við höfum séð að mikill hluti þeirra sem fara í hagfræði er karlkyns og síðan er nokkuð um að stelpur hálfpartinn týnist eftir að þær útskrifast og eru ekki eins áberandi í þjóðfélaginu og hitt kynið. Ég veit ekki af hverju það er, en maður hefur heyrt marga segja að stelpur hafi ekki áhuga á efnahagsmálum, sem er einfaldlega ekki rétt. Við viljum því vinna í því að búa til kvenkyns fyrirmyndir innan greinarinnar sem geta svo hvatt ungar stelpur til að sækja námið.“

Í frítíma sínum les Brynja mikið um efnahagsmál, alþjóðastjórnmál og hvað sé að gerast í heiminum. „Mér þykir einnig mjög skemmtilegt að ferðast, elda góðan mat og drekka góð vín. Auk þess er ég mikill djassunnandi,“ segir Brynja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .