Hákon Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða hjá Creditinfo Group, hefur gengið til liðs við Mörkina lögmannsstofu þar sem hann verður einn af eigendum stofunnar.

Hákon starfaði áður hjá Creditinfo í 11 ár þar sem hann gegndi ýmsum stjórnunarstörfum, þar á meðal starfi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs og starfi aðstoðarforstjóra. Áður starfaði hann meðal annars hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur og sem bæjarlögmaður hjá Akureyrarbæ. Hákon hefur gegnt stjórnarformennsku í LÍN og Sjúkratryggingum Íslands, auk þess sem hann hefur gengt stjórnarformennsku í fjölmörgum félögum á Íslandi og erlendis. Hákon mun samhliða starfi sínu hjá Mörkinni sitja í stjórn Creditinfo.

Hákon útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998 og öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi 1999.

“Ég vil bjóða Hákon velkominn í eigendahóp lögmannsstofunnar en reynsla hans úr atvinnulífinu og alþjóðaviðskiptum, sem og þekking hans á réttarsviðum tengdum fyrirtækjarekstri, stjórnsýslu og persónuvernd, mun styrkja okkur enn frekar í að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu” segir Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda Markarinnar lögmannsstofu, í fréttatilkynningu.

Mörkin lögmannsstofa var stofnuð árið 1975 og veitir hún alhliða lögfræðiþjónustu og ráðgjöf, svo sem á sviði vinnuréttar, samkeppnisréttar, félagaréttar, stjórnsýsluréttar og refsiréttar.