Halla Guðrún Jónsdóttir hefur tekið við starfi fjármála- og rekstrarstjóra hjá Eyri Invest. Hún kemur til Eyris frá Marel en Eyrir er einmitt stærsti hluthafi Marels. Greint er frá ráðningu Höllu Guðrúnar í fréttatilkynningu.

Halla mun fara fyrir daglegum fjármálum, rekstri og uppgjörum Eyris. Hún er með BS-gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og Paris School of Business og MS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Eins og áður segir starfaði Halla hjá Marel frá árinu 2018, síðast sem teymisstjóri í miðlægri deild fjárhagsbókhalds og uppgjöra hjá félögum Marel í Evrópu og áður leiddi hún fjármáladeild Marels á Íslandi. Hefur hún í störfum sínum sérhæft sig í stöðugum umbótum og ferlavinnu ásamt stærri endurskipulagningarverkefnum.