Breytingar hafa verið gerðar á lykilstjórnendum hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu (SH) og dótturfélögum. Halla Thoroddsen verður nýr forstjóri SH en hún gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra dótturfélagsins Sóltúns öldrunarþjónustu sem rekur Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima og Sóltún Heilsusetur á Sólvangi.

Anna Birna Jensdóttir sem hefur verið framkvæmdastjóri Öldungs hf., dótturfélags SH, í rúm 20 ár hættir störfum sem framkvæmdastjóri en tekur nú við sem starfandi stjórnarformaður hjá SH. Þórir Kjartansson sem hefur verið stjórnarformaður Öldungs undanfarin þrettán ár mun víkja sem stjórnarformaður en sitja áfram í stjórn félagsins ásamt Arnari Þórissyni.

„Það er að okkar mati kominn tími til að sameina rekstur fyrirtækja okkar í öldrunarþjónustu undir eina stjórn. Með þessum breytingum búum við til enn sterkara teymi stjórnenda sem getur stýrt fyrirtækjum Sóltúns heilbrigðisþjónustu í gegnum þann vöxt sem er framundan. Ég er mjög stoltur af þeim öfluga mannauði sem starfar hjá fyrirtækjum okkar í öldrunarþjónustu og hafa sýnt það og sannað að þar er ávallt veitt gæða þjónusta en þjónusta við íbúana og velferð þeirra er ávallt höfð í fyrirrúmi,“ segir Þórir í fréttatilkynningu.

Íslensk fjárfesting ehf. og Hjúkrunarmat og ráðgjöf ehf. eiga sameiginlega SH sem veitir ríkinu þjónustu á sviði öldrunarþjónustu í gegnum samninga við Sjúkratryggingar Íslands. Íslensk fjárfesting, sem er í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar, á 90% hlut í SH en Hjúkrunarmat og Ráðgjöf, sem er í eigu er Önnu Birnu Jensdóttur, er 10% hluthafi í SH.

Með þessum breytingum er tekið fyrsta skrefið í að efla og samþætta betur þá þjónustu sem félögin veita.

„Það er trú okkar að með því að samþætta þjónustu svo sem hjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, rekstur eldhúss, innkaup, fjármál og fleira þá muni þjónustan verða betri, sem íbúar og starfsfólk mun njóta góðs af og í leiðinni verður mun meiri sérhæfing á ýmsum sviðum“, segir Halla Thoroddsen, nýr forstjóri SH.

Undirbúa stórátak

Auk ofangreindra breytinga hefur fyrirtækið gert ýmsar aðrar breytingar í starfsmannamálum hjá fyrirtækjunum.

Ingibjörg Eyþórsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Heilbrigðis- og rekstrarsviðs og framkvæmdastjóri hjúkrunar. Ingibjörg hefur starfað hjá Sóltúni öldrunarþjónustu í 5 ár og átt þátt í uppbyggingu þjónustunnar á Sólvangi.

Baldur Gísli Jónsson hefur verið ráðinn mannauðsstjóri hjá SH. Baldur gegndi áður stöðu mannauðsstjóra hjá Landsbankanum.

Hildur Björk Sigurðardóttir tekur við sem forstöðumaður daglegrar starfsemi og rekstrar hjá Sóltúni en hún hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri hjúkrunar og hjúkrunarstjóri undanfarin ár hjá Sóltúni en þar á undan framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Sólvangi.

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir tekur við sem forstöðumaður daglegrar starfsemi og rekstrar hjá Sólvangi en hún hefur starfað mörg undanfarin ár sem hjúkrunarstjóri hjá Sólvangi og Sóltúni.

Bryndís Guðbrandsdóttir, deildarstjóri á Sólvangi, tekur við sem forstöðumaður dag- og heimaþjónustu sem undir falla Sóltún Heilsusetur, Sóltún Heima og dagdvalir. Hún hefur starfað hjá félaginu síðan 2021 og hefur stjórnunarreynslu við heimahjúkrun, hjúkrunarheimili og endurhæfingu.

„Með þessu erum við að undirbúa fyrirtækin fyrir framtíðina,“ segir Anna Birna. „Samkvæmt spám Hagstofunnar þá er líklegt að það þurfi að taka í notkun um 120-160 ný hjúkrunarrými á ári til að halda í við eftirspurnina. Þá er samt verið að gera ráð fyrir því að heimahjúkrun og heimaþjónusta aukist samhliða en slík þjónusta hefur ekki aukist sem skyldi undanfarin ár þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisins um að auka mikið fjármagn í þann þjónustulið. Ríkið hefur reyndar stigið stór skref í endurhæfingu með Sóltúni Heilsusetri. Það er nýtt og spennandi úrræði sem við erum að opna í haust með samningi við Sjúkratryggingar.“

„Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær fara þarf í stórátak í því að auka framboð á öllum sviðum öldrunarþjónustu og frekari uppbyggingu á hjúkrunarrýmum á Íslandi,“ segir Halla. „Með þessum aðgerðum erum við að undirbúa okkur til að taka þátt í því átaki. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í þeim efnum enda verður aldrei hægt að vinna þetta verkefni nema bæði einkaaðilar og ríkið vinni saman í þeim áskorunum sem augljóslega eru framundan.“