Hallmundur Albertsson og Kristján Gunnar Valdimarsson hafa bæst í eigendahóp Cato lögmanna.

Hallmundur Albertsson útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2000. Þá lauk hann meistaraprófi í evrópskum samkeppnisrétti frá King‘s College í London árið 2012 og hefur auk þess stundað nám í upplýsingatæknirétti við Cambridge Háskóla.

Hallmundur var yfirlögfræðingur Skipta hf., nú Símans hf., á árunum 2011 til 2014 og þar áður forstöðumaður á lögfræðisviði Símans hf. Á þeim tíma átti Hallmundur m.a. sæti í stjórnum og varastjórnum dótturfélaga samstæðunnar. Hallmundur hefur einnig starfað hjá Lex lögmannstofu og í samgönguráðuneytinu sem sérfræðingur fjarskiptamála. Helstu starfssvið Hallmundar eru samkeppnis-, upplýsingatækni-, félaga- og samningaréttur.

Kristján Gunnar Valdimarsson útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990. Þá lauk hann prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2002.

Síðastliðin ár hefur Kristján verið sjálfstætt starfandi sem lögmaður á innlendum og erlendum vettvangi. Áður var hann forstöðumaður skattasviðs Landsbanka Íslands hf. og fyrir það forstöðumaður skattaráðgjafar Búnaðarbanka Íslands hf. Kristján hefur jafnframt starfað í fjármálaráðuneytinu.

Hann gegndi embætti skattstjóra á Vestfjörðum, var skrifstofustjóri eftirlitsskrifstofu skattstjórans í Reykjavík og lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis. Kristján hefur stundað kennslu í skattarétti frá árinu 1996 og verið lektor við lagadeild Háskóla Íslands frá því í nóvember 2007, þar sem hann kennir innlendan og alþjóðlegan skattarétt. Kristján hefur auk þess skrifað fræðigreinar á sviði skattaréttar. Helstu starfssvið Kristjáns eru skatta- og félagaréttur.