Hugbúnaðarfyrirtækið Rue de Net hefur fengið þau Helgu Hlín Hákonardóttur og Magnús Árnason til að taka sæti í þriggja manna stjórn félagsins við hlið Aðalsteins Valdimarssonar stjórnarformanns.

Rue de Net hefur sérhæfir sig í innleiðingu og rekstri viðskiptalausna Microsoft í skýjaumhverfinu. Þá hefur félagið fjárfest í vöruþróun til að bjóða upp á íslenskar sérlausnir.

„Við höfum ávallt einsett okkur að vera í fararbroddi hvað varðar tækninýjungar og höfum á að skipa einvala teymi sérfræðinga með djúpa þekkingu á nýjasta lausnaframboði Microsoft. Til viðbótar við fjárfestingu í þekkingu höfum við einnig fjárfest í nauðsynlegum sérlausnum fyrir íslenska markaðinn. Nú viljum við byggja á allri þessari þekkingu og reynslu og bæta enn frekar í. Við teljum að tækifæri til vaxtar séu mörg og frábært að fá þau Helgu Hlín og Magnús með okkur í lið til að marka þá vegferð,“ er haft eftir Aðalsteini Valdimarssyni, stjórnarformanni fyrirtækisins, í tilkynningu.

Helga Hlín Hákonardóttir er eigandi og ráðgjafi hjá Strategíu. Helga Hlín er héraðsdómslögmaður með próf í verðbréfaviðskiptum og hefur mikla reynslu af starfi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, stjórnarsetu og ráðgjöf til stjórna og eigenda fyrirtækja.

„Ég hef unnið með eigendum og stjórn Rue de Net í sjö ár og er ótrúlega spennt að taka nú til starfa í stjórn fyrirtækisins. Framundan eru endalausar spennandi áskoranir og ævintýri – en umfram allt tækifæri sem við ætlum að nýta til hins ítrasta. Við erum búin að bretta upp ermarnar og erum þegar byrjuð að taka Rue de Net og viðskiptavini þess inn í framtíðina – með okkar landsins besta hugbúnaðarfólki og frábærum eigendum fyrirtækisins sem treysta okkur í stjórninni fyrir mikilvægum verkefnum,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir.

Magnús Árnason er eigandi og ráðgjafi hjá Marka Ráðgjöf. Hann var markaðsstjóri og framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova frá 2016 til 2022. Magnús hefur m.a. setið í stjórnum ÍMARK og Cintamani, verið vörustjóri hjá OZ og vörumerkjastjóri Latabæjar.

„Það er ánægjulegt að koma að félagi með svona mikla sérþekkingu og reynslu eins og Rue de Net hefur innanborðs. Ég upplifi félagið hafa innbyggða breytingarhæfni og heilbrigt áhættuþol sem er forsenda stígandi vaxtar. Tækifærið er mikið í þeirri tæknilegu umbreytingu sem er að eiga sér stað á markaðnum og félagið er tilbúið að vaxa með viðskiptavinum sínum til að hámarka þau verðmæti sem hægt er að sækja í sameiningu. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í þágu Rue de Net og viðskiptavina þess," segir Magnús Árnason.