Herdís Gunnarsdóttir hefur tekið sæti í stjórn Íslandsbanka í kjölfar þess að Heiðrún Jónsdóttir sagði sig úr stjórn bankans, samanber tilkynningu bankans fyrr í dag. Herdís hefur verið varamaður í stjórn bankans frá apríl 2016, en hún tók sæti í stjórn í nóvember 2020 og sat sem aðalmaður í stjórn fram að aðalfundi bankans árið 2021.

Herdís var skipuð í starf forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála í apríl 2022. Herdís var áður framkvæmdastjóri réttindasviðs Tryggingastofnunar á árunum 2020-2022,  forstjóri Heilbrigðisstofnun Suðurlands á árunum 2014-2019 og hún var stjórnandi á Landsspítalanum á árunum 2000-2014.

Herdís hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, þar á meðal hefur hún setið í stjórnum íslenskra og alþjóðlegra félagasamtaka, stéttarfélags og lífeyrissjóðs. Herdís var stjórnarformaður lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga á árunum 2012-2013. Herdís hefur jafnframt unnið að sjálfstæðum verkefnum á sviði stefnumótunar og verkefnastjórnunar og sinnt háskólakennslu.

Hún hefur lokið MBA gráðu og M.Sc. í nýbura- og barnahjúkrun ásamt B.Sc. í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands.