„Það er spennandi að vinna með vörumerki eins og Vodafone sem byggir á sterkum grunni og gegnir því mikilvæga samfélagslega hlutverki að tengja saman hundrað þúsund Íslendinga á hverjum degi í leik og í starfi. Framtíðarsýn félagsins er ekki síður spennandi en Vodafone er framsækið þjónustufyrirtæki þar sem áherslan er á viðskiptavini og skapa virði fyrir þá. Ég brenn einmitt fyrir því að skapa heildræna upplifun fyrir viðskiptavini í gegnum alla snertifleti og á sama tíma finnst mér mikilvægt að hugsa út fyrir kassann og fara óhefðbundnar leiðir í markaðsstarfi. Það eru mikil sóknartækifæri á fjarskiptamarkaðnum og það verður spennandi að taka þátt í að kynna til leiks skemmtilegar nýjungar,“ segir Lilja Kristín Birgisdóttir nýr forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone.

Hún kemur til Vodafone frá indó þar sem hún stýrði stafrænni markaðssetningu. Lilja segir skemmtilegt að hafa tekið þátt í uppbyggingu á fyrirtæki líkt og indó sem hefur hrist aðeins upp í íslensku bankakerfi. „Hjá indó starfa pönkarar með hjartað á réttum stað. Mér líður svolítið eins og ég sé búin að starfa mun lengur en eitt ár hjá sparisjóðnum, því við erum búin að gera svo ótrúlega margt. Það var mikil og góð reynsla að taka þátt í að byggja upp nýtt vörumerki frá grunni með þessu magnaða teymi.“

Lilja býr á Álftanesi ásamt eiginmanni sínum Arnari Hólm Einarssyni, sonum þeirra Eldi Hólm og Stormi Hólm, sjö ára og fjögurra ára, og hundinum Bósa. „Okkur finnst frábært að búa í sveitasælunni á Álftanesi því það er aðeins afslappaðra umhverfi hér en í borginni. Það er því alltaf gott að koma heim í rólegheitin seinni part dags. Við höfum fengið hest í óvænta heimsókn í garðinn okkar og uglu á pallinn, svo það má segja að við búum í hálfgerðri sveit í borg.“

Nánar er rætt við Lilju í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.