„Ég hef lært mikið af því að sem fjármálastjóri hef ég svolítið verið hægri hönd forstjórans, og þar jafnvel verið með meiri völd yfir fjárstreyminu. Það verður áfram mitt verkefni að tryggja að þörfum viðskiptavina verði vel svarað ásamt því að halda vel á spöðunum svo peningarnir flæði ekki á ranga staði," segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, nýr forstjóri Íslandspósts.

„Það er búið að vera frábært að vinna með Birgi Jónssyni, og mér þótti leiðinlegt að hann skyldi ákveða að hætta. Ég trúi því að reynsla mín og má segja kannski nískan eigi eftir að hjálpa mér að stýra Íslandspósti áfram til farsældar, því vandinn var ærinn áður en hann tók við. Sjálf hafði ég ætlað að taka mér hlé frá vinnu og stunda þríþraut af kappi en Birgir sannfærði mig um að koma hingað inn og sé ég ekki eftir því."

Þórhildur Ólöf er viðskiptafræðingur að mennt en síðustu ár starfaði hún hjá 66°Norður, Heklu og Securitas auk stjórnarsetu m.a. hjá Sjóvá. „Ég vann í stjórnsýslunni í Háskólanum með stelpuna mína unga og var með 89 þúsund krónur á mánuði, og hugsaði að ég yrði að gera eitthvað í því og fór því í nám. Eftir ár í námi fór ég að vinna hjá Deloitte, þar sem ég fékk frábært uppeldi sem gaf mér grunninn að því sem ég er í dag," segir Þórhildur Ólöf.

„Ég man að ég var í próflestri með hópi fólks á Þjóðarbókhlöðunni að ég sagði í gríni upphátt að ég ætlaði að verða fjármálastjóri í meðalstóru fyrirtæki með 700 þúsund krónur á mánuði en háskólaprófessorar voru þá með 149 þúsund. Það hlógu auðvitað allir í kringum mig en við það að segja markmið sín upphátt þá vaknar undirmeðvitundin og augun opnast fyrir tækifærunum."

Eiginmaður Þórhildar Ólafar er Stefán Árni Auðólfsson en hann rekur lögmannstofuna LMB og eiga þau saman þrjú börn. „Þau eru frá 14 til 27 ára, og svo á ég tvö barnabörn, sem eru eins og fimm ára, þar á meðal eina litla nöfnu. Ég mæti því oft í vinnuna klukkan átta og sæki þau svo á leikskólann fyrir foreldrana," segir Þórhildur Ólöf.

„Við erum mikið fjölskyldufólk og stundum saman skíði en ég lærði sjálf bara með eldri stráknum að fara í plóg í Bláfjöllum. Í dag erum við mikið á fjallaskíðum og fórum til dæmis í vor upp á Heklu og erum almennt mikið í náttúrunni. Í fyrra fórum við og bárum allt á bakinu úr Landmannalaugum inn í Hattver og er magnað að vera svona alein í heiminum. Ég ákvað nefnilega þegar ég átti dóttur mína að verða aldrei í svo lélegu formi að geta ekki gert það sem hún bæði mig um að gera með sér."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér