Jón Heiðar Ragnheiðarson er nýr sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá Controlant. „Þetta leggst afskaplega vel í mig. Þetta er frábært fyrirtæki sem hefur vaxið mjög hratt og er að gera flotta hluti með leiðandi lyfjafyrirtækjum um allan heim. Það er gefandi að vinna hjá fyrirtæki sem er að vinna svona mikilvægt starf á heimsvísu“ segir Jón.

„Mitt ábyrgðarsvið snýst um að hjálpa Controlant að vaxa á alþjóðlegum markaði í gegnum stafræna miðla. Það eru margir snertifletir sem þarf að halda utan um, til dæmis samfélagsmiðla á borð við Linkedin og Twitter, vefinn og tölvupóst. Áskorunin er að láta þetta vinna saman.“ Það’ er sérstaklega mikilvægt að að vekja athygli stjórnenda í þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem Controlant vill ná til.

Þá segir hann tækifæri Controlant vera gríðarlega mikil. „Það er óplægður akur á þessum markaði. Við erum rétt að byrja að koma okkar lausnum á framfæri gagnvart lyfjafyrirtækjum og öðrum aðilum um allan heim. Það eru alltaf hægt að nýta stafræna miðla betur til að ná til nýrra viðskiptavina og þjónusta núverandi viðskiptavini betur.

Undanfarna tvo áratugi hefur Jón Heiðar starfað á sviðið stafrænnar vöruþróunar, markaðssetningar og þjónustu í fjártækni, ferðaiðnaði, fjarskiptum og upplýsingatækni sem hann telur að muni nýtast honum vel í nýju starfi. „Í grunninn byggir stafræn markaðssetning á fyrirtækjamarkaði á sömu aðferðarfræðinni. Það er nú þó þannig að hver iðnaður er einstakur og núna er ég að læra á markaðinn sem Controlant starfar á.

Jón Heiðar er giftur Hallveigu Rúnarsdóttur, söngkonu, og saman eiga þau eina dóttur, hana Ragnheiði Dóru sem er 22 ára. Í frítíma sínum hefur Jón gaman að hjólreiðum, útihlaupum og stundar líkamsrækt í Mjölni. Þá hefur Jón rekið ferðatímarit frá árinu 2012 í frítíma sínum sem heitir Stuck in Iceland. Jón ætlar að njóta restarinnar af sumrinu „Ég er að fara á tónleika í Kaupmannahöfn og sjá söngsveitina  Slipknot og svo ætla ég í hálendisferð með þýskum félaga mínum.“

Viðtalið birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.