Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) og Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) hafa gert með sér samstarfssamning um símenntun hjúkrunarfræðinga. Verðlagning námskeiða er í lágmarki og mun EHÍ einnig bjóða félagsmönnum FÍH valin námskeið úr framboði sínu á sérstökum afsláttarkjörum.

Á vorönn verður boðið upp fimm námskeið, þar af tvö klínísk. Í febrúar er boðið upp á námskeiðið ‘Viðbótar og óhefðbundnar meðferðir í hjúkrun’ í umsjón Þóru Jennýjar Gunnarsdóttir lektors við hjúkrunarfræðideild H.Í. Námskeiðið er ætlað hjúkrunarfræðingum og jafngildir námskeiðum á meistarastigi við hjúkrunarfræðideild H.Í.  Í apríl verður haldið námskeið um næringu og vökvajafnvægi í umsjón hjúkrunarfræðinganna Marianne Elisabeth Klinke og Jónínu H. Hafliðadóttur. Á námskeiðinu verður fjallað um vannæringu og vökvaskort sjúklinga á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum ásamt fyrirbyggjandi meðferð og aðkomu hinna ýmsu fagstétta að meðferð og umönnun þeirra. Námskeiðið er ætlað öllum heilbrigðisstéttum.

Hin þrjú námskeiðin eru fyrst og fremst ætluð hjúkrunarfræðingum og verður þar lögð áhersla á að styrkja einstaklinginn m.a. í samningum um eigin laun og kjör. Námskeiðin sem haldin verða í mars, apríl og maí  eru ‘Framsaga og fundarsköp’, ‘Að skrifa grein og koma fram í fjölmiðlum’ og ‘Er hjúkrun launuð vinna eða hugsjónastarf? -Að semja um kaup og kjör.’  Kennarar á þessum námskeiðum eru Gísli Blöndal, markaðs- og þjónusturáðgjafi, Guðlaug Guðmundsdóttir, M.Paed og Magrét Pálsdóttir, málfræðingur; Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og Steinunn Stefánsdóttir, M.Sc. í viðskiptasálarfræði og streitufræðum.

Það er von samstarfsaðila að samningur þessi nýtist hjúkrunarfræðingum vel og komi til móts við þarfir þeirra varðandi símenntun.