Höskuldur Eiríksson hefur hafið störf hjá KPMG Lögmönnum og er jafnframt orðinn einn eigenda stofunnar. Höskuldur starfaði áður hjá lögmannsstofunni BBA Legal þar sem hann var einnig einn eigenda. Höskuldur hóf störf hjá Logos lögmannsþjónustu 2006 en færði sig til BBA Legal árið 2007.

Hjá BBA Legal hefur Höskuldur byggt upp þekkingu og reynslu í tengslum við lögfræðilega ráðgjöf tengda viðskiptalífinu. Í seinni tíð hefur hann unnið einna mest í kaupum- og sölum fyrirtækja á Íslandi og yfir landamæri (Cross-border M&A).

Höskuldur hefur m.a. unnið fyrir ýmsa sjóði, sjóðsstýringarfyrirtæki og banka í slíkum verkefnum, sem sum hver eru á meðal stærstu viðskipta frá hruni og varða m.a. kaup og sölu á upplýsingatæknifyrirtækjum, fasteignafélögum, þjónustufyrirtækjum og fyrirtækjum í smávöruverslun.

Jafnframt hefur hann veitt víðtæka ráðgjöf um félagaréttarleg málefni og annast ýmiss konar samningagerð og lögfræðilega greiningu fyrir fyrirtæki í tengslum við ýmiss konar fjárfestingar og samningagerð, bæði innanlands og utan.

Þá hefur Höskuldur sérhæft sig í alþjóðlegum og innlendum lánssamningum og hefur unnið fyrir flesta íslensku bankana sem og ýmsa erlenda banka í slíkri samningagerð og veðtöku tengdri slíkum lánum. Hann náði sér t.a.m. í LL.M. gráðu í International Banking & Finance hjá UCL í London.

Þá er Höskuldur höfundur bókarinnar „Lánssamningar á milli banka og fyrirtækja“, en á árum áður þótti hann liðtækur knattspyrnumaður og á að baki nokkurn fjölda leikja í efstu deild á Íslandi, með liðum eins og KR, Víking og FH. Höskuldur er giftur Freyju Jónsdóttur lyfjafræðingi og eiga þau fimm börn.

Byggt á grunni KPMG

KPMG Lögmenn er lögmannsstofa sem sett var á laggirnar árið 2018 á grunni KPMG. Hjá KPMG Lögmönnum starfa nú tæplega 30 manns, þar af tuttugu lögmenn og lögfræðingar og tíu aðrir sérfræðingar sem búa yfir sérþekkingu á öðrum sviðum viðskipta og fjármála.

Hjá KPMG Global starfa nú um 2.300 lögmenn í 80 löndum og hefur sá hópur stækkað ört á undanförnum árum samhliða vexti í þessari þjónustu KPMG. KPMG Global lítur á á lögmannsþjónustu sem eitt helsta vaxtartækifærið og hefur sett metnaðarfull markmið um að ná að stækka enn meira á komandi árum. Er jafnvel gert ráð fyrir að lögmenn hjá KPMG verði um 3.000 talsins á næstu einu til tveimur árum.

„Það er ánægjulegt og mikill fengur að fá Höskuld til liðs við okkur hjá KPMG Lögmönnum. Höskuldur hefur víðtækna reynslu og þekkingu á málum sem viðkemur þeirri ráðgjöf sem við veitum viðskiptavinum KPMG. Hann hefur veitt ráðgjöf í tengslum við mörg af stærstu endurskipulagningarverkefnum síðustu ára, sem vörðuðu fjármálafyrirtæki, fasteignafyrirtæki og framleiðslufyrirtæki, og hefur þar unnið fyrir erlenda sambanka, erlend fjármögnunarleigufyrirtæki, innlenda banka og slitastjórn eins föllnu bankanna.“ segir Soffía Eydís Björgvinsdóttir, eigandi hjá KPMG Lögmönnum.