Nýsköpunarfyrirtækið Empower hefur ráðið til sín fjóra hugbúnaðarsérfræðinga. Nýtt starfsfólk kemur til með að vinna að þróun, Empower Now, hugbúnaðarlausnar, sem gerir fyrirtækjum og stofnunum á alþjóðavísu kleift að ná yfirsýn yfir stöðu jafnréttis og fjölbreytni, setja mælanleg markmið og innleiða örfræðslu fyrir starfsfólk í gegnum stafrænar leiðir.

Anna Berglind Jónsdóttir hefur verið ráðin sem hugbúnaðarsérfræðingur, en hún starfaði áður við hugbúnaðargerð hjá Lucinity. Anna Berglind er með BS gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og BS gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla.

Helgi Gylfason hefur verið ráðinn sem hugbúnaðarsérfræðingur, en hann starfaði áður við hugbúnaðargerð hjá Hugfimi. Helgi er með MS gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem hugbúnaðarsérfræðingur, en hún starfaði áður sem forritari hjá Valitor. Sigurbjörg Rós er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Zakia Shafaee hefur verið ráðin sem hugbúnaðarsérfræðingur, en hún starfaði áður sem forritari hjá Skógræktinni. Zakia er með BS gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Stækkun hugbúnaðarteymis Empower er liður í sókn og umbreytingu fyrirtækisins en við stefnum að því að setja hugbúnaðarlausn okkar Empower Now á alþjóðamarkað haustið 2023. Það er gríðarleg eftirspurn á erlendum mörkuðum eftir lausnum er varða jafnrétti og fjölbreytni (DEI). Talið er að markaðurinn fyrir þær muni stækka um helming á næstu sex árum. Empower stefnir að því að verða leiðandi á þeim markaði,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og meðeigandi Empower.