Ingibjörg Ólafsdóttir er nýr mannauðs - gæðastjóri og Freyr Eyjólfsson er nýr samskiptastjóri hjá Terra, sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá í október síðastliðnum er nýja nafnið á Gámaþjónustunni.

Ingibjörg Ólafsdóttir hefur verið ráðin mannauðs- og gæðastjóri Terra umhverfisþjónustu hf. Undanfarin 12 ár hefur Ingibjörg starfað hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson í ýmsum störfum, síðast sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs sem fór með mannauðs-, gæða- og öryggismál, auk breytingastjórnunar og annarra tilfallandi verkefna.

Áður starfaði hún hjá Símanum sem forstöðumaður gæðastjórnunar.   Ingibjörg hefur lokið B.Sc námi í  iðnaðartæknifræði og iðnrekstrarfræði.  Ingibjörg hóf störf þann 1. janúar sl.

Freyr Eyjólfsson hefur verið ráðinn samskiptastjóri hjá Terra umhverfisþjónustu hf. Freyr á að baki áralanga reynslu í fjölmiðlum, lengst af sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.

Hann er auk þess með meistarapróf í stafrænni stjórnun frá Hyper Island í Stokkhólmi, B.A. gráðu í mannfræði og almenn kennsluréttindi frá Háskóla Íslands.  Freyr hefur störf þann 1. febrúar nk.

Terra hefur starfað við flokkun og endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að skilja ekkert eftir, það er að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið.

Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og hefur hannað sérstakt upplýsingarkerfi þar sem viðskiptavinir geta fylgst grannt með umhverfissporum sínum í rauntíma.