Ingólfur Haraldsson hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri hótelkeðjunnar Berjaya Iceland Hotels, sem hét áður Icelandair Hotels. Hann lætur af störfum í dag, að því er mbl.is greinir frá. Í tölvupósti til starfsmanna segir hann að samstarf sitt við núverandi eigendur hafi ekki átt sér þá framtíð sem hann vonaðist eftir.

Ingólfur tók við stöðunni af Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur í ágúst 2021. Ingólfur hefur starfað hjá hótelkeðjunni frá árinu 1993 og var hótelstjóri Hilton Reykjavík Nordica árin 2004-2021.

„Ég tók þessa ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum síðan eftir vandlega umhugsun þar sem ég tel að samstarf mitt við núverandi eigendur eigi sér ekki þá framtíð sem ég hefði óskað,“ segir Ingólfur í tölvupósti til starfsmanna, sem mbl.is hefur undir höndum.

Malasíska fjárfestingafélagið Berjaya, sem var stofnað af Vincent Tan, náði samkomulagi um kaup á ráðandi hlut í hótelkeðjunni árið 2019. Icelandair gekk endanlega frá sölu á öllum eignarhlut sínum í hótelkeðjunni í ágúst 2021.

Í september síðastliðnum var tilkynnt um að nafni hótelkeðjunnar, sem rekur þrettán hótel á Íslandi, hefði verið breytt í Berjaya Iceland Hotels og nafni hótelfélagsins breytt í Iceland Hotel Collection by Berjaya.