Ivar Thorsteinsson hefur hafið störf sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Reon og tengdum félögum. Áður starfaði Ivar sem sölustjóri hjá Opnum Kerfum og þar áður sem sölu- og markaðsstjóri Kolibri. Ivar er með B.Sc. í viðskiptafræði og stundar meistaranám í Háskóla Íslands í nýsköpun og viðskiptaþróun.

„Þetta er ákaflega spennandi tækifæri og um leið mikil áskorun að taka við þessu hlutverki hjá Reon. Fyrirtækið er á mjög spennandi stað og gríðarleg tækifæri í þróun viðskiptasambanda og uppbyggingu eigin lausna fyrirtækisins. Hjá Reon starfar mjög öflugur hópur fólks og það verður mjög gaman að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins með þeim,” er haft eftir Ivari í fréttatilkynningu.

Reon er 10 ára gamalt hugbúnaðarfyrirtæki sem starfar á fyrirtækjamarkaði. Reon hefur á undanförnum misserum eignast hluti í hugbúnaðarfyrirtækjunum Hugfimi og KoiKoi ásamt hönnunarfyrirtækinu Jökulá.

Sjá einnig: Hugfimi geti vaxið utan landsteinanna

„Það er mikill sóknarhugur í okkur og Ivar kemur inn með réttar áherslur sem passa mjög vel við okkar hugarfar og viðskiptamódel. Á komandi misserum verður lögð mikil áhersla á að byggja upp samlegðaráhrif milli samstarfsfyrirtækja okkar. Því til viðbótar hyggjum við á frekari þróun á þeim lausnum sem við höfum búið til á undanförnum árum. Ívar mun gegna lykilhlutverki í þessum verkefnum hjá Reon,” segir Elvar Örn Þormar , framkvæmdastjóri Reon.