Jóhannes Ólafur Jóhannesson hefur verið ráðinn til Andes sem rekstrarstjóri fyrirtækisins. Hann hefur starfað við upplýsingatækni síðan 1999 og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

Hann hefur einnig verið teymisstjóri hjá fyrirtækjum á borð við og CCP, Wuxi NextCode, Valitor og Controlant.

"Hjá Wuxi fór ég endanlega af jörðinni og upp í skýin til AWS og hef ekki unnið með vélbúnaðarsali síðan þá og sé ekki eftir því. Ég er gríðarlega ánægður að vera kominn til Andes sem vinna mjög náið með AWS en fyrst of fremst er það Andes hópurinn sem gerir hvern dag skemmtilegan“, segir Jóhannes.

Ari Viðar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Andes, segir það mikinn feng að fá Jóhannes til liðs fyrir fyrirtækið þar sem Andes hafi stækkað undanfarin ár í takt við vaxandi áhuga á AWS skýjalausnum á Íslandi.

„Eftirspurnin eftir hraða og öryggi skýjalausna í AWS hefur þannig aldrei verið meiri en akkúrat núna, enda netöryggi mikið í umræðunni og nokkuð sem fyrirtæki um allan heim eru að huga vel að.“, segir Ari.