Jónas Yngvi Ásgrímsson tók nýverið við starfi hjá Uniconta þar sem hann leiðir ráðgjöf, þjónustu og sölu. Jónas starfaði áður hjá DK hugbúnaði til 14 ára við ráðgjöf og þjónustu við notendur. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Jónas er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum á Akureyri en meðfram vinnu leggur hann nú stund á nám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum.

“Ég er verulega spenntur fyrir nýja starfinu og hlakka til samstarfs við viðskiptavini og fagaðila auk þeirrar aðkomu sem ég mun eiga að þróun á lausnum hugbúnaðarins fyrir íslenskan markað. Uniconta hefur á undanförnum árum hlotið góðar viðtökur hér á landi og það hefur sýnt sig og sannað að kerfið er öflug framtíðarlausn fyrir íslensk fyrirtæki. Ég vona að reynsla mín og þekking verði félaginu lyftistöng og stuðli að áframhaldandi vexti og velgengni þess,” er haft eftir Jónasi Yngva í tilkynningunni.