Fjártæknifyrirtækið Aurbjörg hefur ráðið inn tvo nýja stjórnendur. Katla Hlöðversdóttir mun gegna stöðu þjónustu- og upplifunarstjóra og Viðar Engilbertsson verður markaðsstjóri Aurbjargar.

Katla Hlöðversdóttir er með B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og stundaði meistaranám í verkefnastjórnun við sama skóla. Áður starfaði Katla sem markaðsstjóri hjá Skólamat.

Katla er Keflvíkingur sem er búsett í Garðabæ og í sambúð með Arnari Þór Ingasyni. Hún eignaðist sitt fyrsta sjónvarp fyrir skömmu, en hún nýtur þess að lesa góðar bókmenntir sem hún hefur tekið fram yfir sjónvarpsáhorf. Þá er Katla mikill matgæðingur.

Viðar Engilbertsson stundaði meistaranám í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum og er einnig með meistaragráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Hann starfaði hjá Larsen Energy Branding, stýrði markaðsmálum hjá Skaginn 3X og hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi áður en hann gekk til liðs við Aurbjörgu.

Viðar er Skagamaður í húð og hár. Hann þykir lunkinn gítarleikari og lagasmiður, er keppnismaður í kraftlyftingum og hefur meðal annars lyft 255 kílóum í réttstöðulyftu og 150 kílóum í bekkpressu og einbeitir sér nú að því að hlaupa maraþon. Viðar er giftur Gyðu Björk Bergþórsdóttur og eiga þau þrjár stúlkur.

„Katla og Viðar eru frábær viðbót við starfsmannahóp Aurbjargar. Þau hafa mikla reynslu og þekkingu sem mun koma að góðum notum - ekki síst í þeim nýju verkefnum sem framundan eru,“ segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.