Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa ráðið tvo sérfræðinga til starfa, þær Laufeyju Rún Ketilsdóttur og Lísu Anne Libungan.

Laufey Rún Ketilsdóttur mun gegna stöðu upplýsingafulltrúa en hún hefur störf 1. júní næstkomandi að loknu fæðingarorlofi. Laufey Rún er lögfræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík (MA) og Háskóla Íslands (BA). Hún starfaði sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra frá 2017 og síðar sem aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi frá 2019. Þá starfaði hún sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2014.

Samhliða námi og starfi hefur Laufey Rún sinnt ýmsum félagsstörfum en hún var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2015-2017 og sat í stjórn sambandsins um árabil.

Lísa Anne Libungan mun gegna stöðu sérfræðings í vistkerfi hafs og mun hún hefja störf fljótlega. Lísa Anne lauk doktorsprófi í fiskifræði frá Háskóla Íslands árið 2015, auk diploma í hafrétti árið 2019. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar frá 2017, fyrst við sjávarvistfræðirannsóknir en síðustu ár sem verkefnastjóri yfir stofnmati og rannsóknum á síld, auk þess að vera virk í vinnunefndum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES.

Hún hefur sinnt kennslu í 18 ár á háskólastigi og var formaður Líffræðifélags Íslands á árunum 2016-2021. Lísa Anne hefur víðtæka reynslu í sjávarvistfræðirannsóknum og hún er höfundur fjölda ritrýndra vísindagreina, skýrslna og hugbúnaðarins 'shapeR' í forritunarmálinu R, sem hægt er að nota til að aðgreina fiskistofna með kvarnalögun.

Við hlökkum til að fá Laufeyju Rún og Lísu Anne til starfa. Víðtæk reynsla þeirra og þekking munu nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru hjá samtökunum. Þá er ekki síður ánægjulegt, að með ráðningunum tveimur hefur hlutfall karla og kvenna hjá SFS verið jafnað,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Báðar stöður voru auglýstar í nóvember síðastliðnum og þær Laufey Rún og Lísa Anne valdar úr stórum hópi umsækjenda.