„Ég mun sinna rekstri stjórnkerfis upplýsingaöryggis Þekkingar ásamt því að veita viðskiptavinum fyrirtækisins ráðgjöf um upplýsingaöryggi og persónuvernd. Það má segja að öll störf mín hingað til hafi snúist um hvernig gera megi betur, hvort sem það er í gæðamálum, öryggismálum eða persónuverndarmálum,“ segir Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir, nýr upplýsingaöryggisstjóri hjá Þekkingu sem er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni.

„Almennt í rekstri er alltaf gott að setja upp ákveðinn ramma og markmið sem þurfi að ná og svo reyna að gera miklu betur. Þá er mikilvægt fyrir fyrirtæki að staðna ekki heldur fylgjast með þróuninni í geiranum og vera stöðugt í sjálfskoðun. Ég hef alltaf lagt á það áherslu á að fólk líti á allar umbætur innan fyrirtækja sem tækifæri, hvort sem það er í kjölfar einhverra atvika í starfseminni eða ábendinga frá viðskiptavinum.“

Síðasta rúma árið hefur Áslaug starfað hjá Hagstofunni þar sem hún sinnti stöðu gæðastjóra og persónuverndarfulltrúa, en þar áður starfaði hún hjá Gámaþjónustunni, sem nú heitir Terra.

„Eiginlega má segja að ég sé alin upp í ruslinu og lengi þekkti ég lítið annað enda stofnaði pabbi Gámaþjónustuna stuttu áður en ég fæddist. Ég vann þar til að mynda í stjórnstöðinni meðan ég var í menntaskóla, og svo tók ég meiraprófið þegar ég var 18 ára og fékk tækifæri til að keyra um með og losa gáma sem opnaði augu mín fyrir hversu ábyrgðarfullt starf það er að keyra um á svona stórum bílum,“ segir Áslaug.

„Það hjálpaði mér seinna að geta sett mig í spor bílstjóranna og annarra að hafa fengið að taka að mér ýmiss konar störf hjá félaginu, þegar ég starfaði sem gæðastjóri og síðar forstöðumaður þjónustu- og viðskiptasviðs. Þá var mitt hlutverk að koma með tillögur að umbótum í rekstri. Það var mjög góður lærdómur og verðmætt en líka áskorun að vinna svona náið með fjölskyldu sinni, en þar skiptir miklu máli að setja mörk og passa sig sérstaklega vel á því að taka ekki vinnuna með sér heim. Stundum þarf maður að vera sammála sínum nánustu ættingjum um að vera ósammála um eitthvað í rekstrinum. Síðan lærði ég mikið af því góða fólki sem hefur tekið við félaginu.“

Áslaug er gift Ragnari Geir Gíslasyni bifreiðasmiði og saman eiga þau tvö börn, 12 ára strák og 9 ára stelpu.„Í þessu ástandi sem er núna er gott að okkur finnst mjög gaman að eyða tíma saman. Við erum dugleg að ferðast erlendis þegar það er hægt en í sumar fórum við eins og hálf þjóðin til Vestfjarða sem krökkunum fannst æðislegt ævintýri jafnvel þó við lentum í appelsínugulri viðvörun. Svo er mikið spilað á þessu heimili og höfum við öll gaman að því.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .