Maren Albertsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri á LOGOS frá 1. júní 2022.

Maren hefur víðtæka reynslu á sviði stjórnsýsluréttar og hefur undanfarin tíu ár starfað hjá umboðsmanni Alþingis, nú síðast sem skrifstofustjóri með yfirumsjón með starfsemi umboðsmanns og þar áður sem aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis.

Maren er með LL.M.-gráðu í alþjóðlegum gerðardómsrétti frá Háskólanum í Stokkhólmi og meistarapróf frá lagadeild Háskóla Íslands. Auk þess hefur hún lokið BA-prófi bæði í lögfræði og íslensku frá sama skóla. Maren hefur einnig um árabil sinnt kennslu við lagadeild og stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í námskeiðum á sviði stjórnsýsluréttar.

Í tilkynningu frá Logos segir:

„Reglur stjórnsýsluréttar gegna í síauknum mæli hlutverki á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Þar reynir á að hafa góða yfirsýn yfir uppbyggingu og verkefni stjórnsýslunnar sem og samspil þeirra reglna innbyrðis og við önnur réttarsvið. Lögmenn LOGOS eru í stakk búnir til að veita ráðgjöf um meðferð stjórnsýslumála á öllum sviðum stjórnsýslunnar og að sjá um samskipti við stjórnvöld.“

Benedikt Egill Árnason faglegur framkvæmdastjóri LOGOS:

„Við erum mjög ánægð með að fá Maren aftur í okkar raðir, en hún starfaði hjá LOGOS sem laganemi og fulltrúi á árunum 2008 til 2012. Hún mun koma með mikla þekkingu á stjórnsýslurétti inn á stofuna sem bætir enn í þjónustuframboðið til okkar viðskiptavina.“