María Rún Hafliðadóttir ráðin forstjóri Gleðipinna hf. Hún hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2018, síðast sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs. Í eigu Gleðipinna eru American Style, Aktu Taktu og Hamborgarafabrikkan auk þess sem félagið á 80% í pizzastaðnum Black Box.

Áður starfaði María Rún hjá Icelandair sem forstöðumaður þjónustustusviðs en hún starfaði þar áður m.a. hjá Vodafone og Kaupþingi.

María er með MS-gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og BS-gráðu í alþjóðaviðskiptum frá háskólanum í Wiesbaden í Þýskalandi.

„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur að María Rún taki við stjórnartaumum félagsins enda reynslumikill stjórnandi. Gleðipinnar er á spennandi vegferð og mörg verkefni framundan. María Rún þekkir starfsemi Gleðipinna í bak og fyrir og býr að dýrmætri reynslu og þekkingu,“ segir Sigurjón Rafnsson stjórnarformaður Gleðipinna.

Í október var greint frá því að Kaupfélag Skagfirðinga og Hái Klettur, félag Árna Péturs Jónssonar, hefðu náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum. Samkeppniseftirlitið heimilaði kaupin í lok mars síðastliðnum.