Sænska bankasamsteypan Swedbank býður nú öllum viðskiptavinum sínum í Svíþjóð, Eistlandi, Lettlandi og Litháen snjallsíma- og netbankalausnir frá íslenska fjártæknifyrirtækinu Meniga. Swedbank er stærsti banki Svíþjóðar með rúmlega 7 milljónir einstaklinga og 600 þúsund fyrirtæki í viðskiptum. Bankinn er einnig með mikla hlutdeild á bankamarkaði í Eystrasaltslöndunum.

Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn af stofnendum Meniga segir samstarfið styrkja stöðu Meniga sem leiðandi fjártæknifyrirtæki fyrir netbankalausnir í Evrópu.

„Við erum mjög ánægð með samstarfið við Swedbank enda er bankinn einn stærsti banki á Norðurlöndunum og með sterka stöðu víða í Evrópu,“ segir Georg. „Milljónir viðskiptavina bankans fá nú betri yfirsýn yfir heimilisfjármálin sín og nýjar leiðir til að sinna fjárhagslegri heilsu.“

Bet

Swedbank hyggst nota hugbúnað Meniga til að veita viðskiptavinum sínum þægilegri og persónulegri notendaupplifun. Viðskiptavinir geta til að mynda séð tekju- og útgjaldaskýrslur, búið til fjárhagsáætlanir og sett sér útgjaldamarkmið. Þessar lausnir eru sambærilegar við það sem tugþúsundir Íslendinga nýta sér gjaldfrjálst í Meniga appinu.

„Við völdum Meniga sem samstarfsaðila í þessu verkefni vegna reynslu þeirra í stafrænni bankaþjónustu. Lausnir fyrirtækisins gera bankanum kleift að bjóða fólki öfluga þjónustu í gegnum snjallsíma og netbanka sem er jafnframt einföld í notkun,“ segir Lotta Lovén, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Swedbank.

Faraldurinn eykur þörf á notkun netbanka

Gríðarleg aukning hefur orðið í notkun netbanka á þessu ári. Covid faraldurinn hefur bæði valdið því að fólk um allan heim hefur þurft meiri aðstoð við heimilisfjármálin sín og haft minni aðgang að bankaútibúum vegna fjöldatakmarkana.

Fyrr á þessu ári birti fjártæknifyrirtækið Nucoro niðurstöður könnunar sem sýndi fram á að 12% bresku þjóðarinnar hefði opnað netbankann sinn í fyrsta skipti í miðjum faraldri.

Því hefur aldrei verið eins mikilvægt fyrir banka að bjóða viðskiptavinum sínum góða þjónustu í gegnum netbanka sem hjálpar fólki að halda utan um heimilisfjármálin sín að því er segir í tilkynningu Meniga.