„Ég er ótrúlega spenntur fyrir nýja hlutverkinu,“ segir Hjörvar Blær Guðmundsson, nýr forstöðumaður útflutningsdeildar Eimskips.

Hann hefur starfað í útflutningsdeildinni frá árinu 2021, en hann útskrifaðist sama ár með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hann segir að fyrsta verkefni hans sem forstöðumaður deildarinnar verði að virkja samtalið við viðskiptavini.

„Fyrstu vikurnar fara í að hitta viðskiptavinina, bæði nýja og gamla. Hlutverk mitt innan fyrirtækisins mun fara úr því að vera í daglegri sölu, yfir í daglega stýringu og yfirumsjón deildarinnar.“

Hjörvar, sem er fæddur árið 1998, segir Eimskip halda vel utan um ungt og efnilegt fólk innan fyrirtækisins.

„Það er gert ótrúlega vel í því að rækta starfsfólkið og sýna því traust í starfi. Ég byrjaði í þjónustustöðu hjá fyrirtækinu í október 2021 og var orðinn viðskiptastjóri í útflutningsdeildinni rúmlega hálfu ári síðar. Núna er ég að taka við deildinni, rúmlega einu og hálfu ári eftir að ég hóf störf. Ég er ekkert viss um að mörg fyrirtæki myndu treysta ungu fólki jafnvel í svona ábyrgðarfullt starf eins og Eimskip er að gera. Fyrirtækið hefur verið mjög markvisst í því að halda utan um ungt og efnilegt fólk innan félagsins og leyfa því að vaxa og styrkjast í starfi.“

Hjörvar þekkir vel til sjávarútvegs og hefur starfað í geiranum nær allan sinn starfsferil.

„Ég er fæddur og uppalinn á Árskógssandi fyrir norðan, fjölskyldan min er öll þaðan og pabbi, afi og langafi voru þar allir í útgerð. Ég hef lengi unnið í sjávarútvegi bæði í sumarstörfum og með skóla. Áður en ég hóf störf hjá Eimskip vann ég hjá Lava Seafood, félag sem flytur út skreið. Þar var ég á sumrin með skóla og í fullu starfi frá útskrift og fram að október 2021. Minn metnaður hefur því alltaf legið þarna.“

Nánar er rætt við Hjörvar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.