Fríhöfnin, sem er dótturfélag opinbera hlutafélagsins Isavia, hefur ráðið Guðrúnu Tinnu Ólafsdóttur sem rekstrarstjóra verslunarsviðs félagsins, en um er að ræða nýtt starf.

„Það er alltaf spennandi að koma inn í fyrirtæki í kjölfar skipulagsbreytinga en innan Fríhafnarinnar eru nú um 220 starfsmenn og nokkrar verslanir. Mitt hlutverk verður að tryggja að þörfum eigenda, starfsmanna og viðskiptavina verði fullnægt, með því að auka söluna og tryggja rekstrarhagræði,“ segir Tinna.

„Fríhöfnin er í hreinni smásölu og annað hvort hefurðu áhuga á smásölu eða ekki en mér finnst gríðarlega spennandi að sjá hvernig þarfir ferðamanna sem koma til Íslands munu breytast. Sem dæmi þá verða ferðamenn frá Kína með aðrar þarfir og væntingar heldur en til að mynda þeir sem koma frá Finnlandi.“

Tinna er gift Karli Pétri Jónssyni og saman eiga þau fimm börn en fjölskyldan stundar mikið skíði og sund og nýtur þess að eyða tíma saman. „Það er eins gott að við höfum áhuga á því, þegar við erum svona mörg, en yngstir eru tvíburar sem eru sex ára, svo eru hin ellefu, fimmtán og svo eigum við tvítugan strák,“ segir Tinna sem sjálf hefur alla tíð verið dugleg að stunda íþróttir.

„Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á kraftlyftingum og stunda þær ásamt stórum hópi, af einkum konum héðan af Seltjarnarnesinu og víðar, sem æfum með Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur. Ég hef bæði mikla skemmtun af þessu félagslega og svo er gott fyrir líkamann að byggja upp vöðva fyrir komandi ár. Ég fer fyrir vinnu þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Það er gríðarlega mikil núvitund í þessu því það þarf mikla einbeitingu en það er algerlega nauðsynlegt þegar maður er í mikilli vinnu og með stóra fjölskyldu að geta gefið sér tíma fyrir sjálfan sig. Bæði til að byggja upp líkamann en líka til að geta núllstillt sig.“

Tinna segir að það hafi verið svolítið skref að grípa í stöngina í fyrsta sinn og taka réttstöðulyftur, hnébeygjur og þess háttar æfingar sem reyna á allan líkamann. „Þetta er mjög gott fyrir sjálfstraustið því árangurinn er svo sýnilegur, bæði líkamlega en einnig í árangri í hvert sinn sem maður getur bætt við fimm eða tíu kílóa lóðum,“ segir Tinna, en hún nýtur þess að takast á við áskoranir.

Eftir að hafa hafið starfsferilinn hjá VÍB vann hún fyrir Kaupþing í Lúxemborg, síðan Baug og loks byggði hún upp vörumerki Ígló ásamt stofnandanum, Helgu Ólafsdóttur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .