Hildur Rún Guðjónsdóttir hóf í byrjun mánaðar störf hjá Plaio sem framkvæmdastjóri árangursdrifinna viðskiptatengsla. Plaio þróar hugbúnað fyrir framleiðslustýringu og áætlanagerð lyfjafyrirtækja, sem stuðlar að hagræðingu í rekstri og bættri nýtingu aðfanga. Áður starfaði hún hjá Deloitte sem verkefnastjóri á sviði viðskiptalausna. Hún segir fyrstu vikurnar í nýju starfi hafa verið skemmtilegar.

„Það eru skemmtileg viðbrigði að hefja störf hjá tiltölulega ungu fyrirtæki sem er í miklum vexti, eftir nokkurra ára veru hjá stóru og fjölmennu fyrirtæki eins og Deloitte. Plaio starfar í spennandi umhverfi og það er gaman að fá að taka þátt í að stuðla að áframhaldandi vexti félagsins. Árangursdrifin viðskiptatengsl hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og mitt hlutverk innan fyrirtækisins er fjölþætt. Ég stýri innleiðingum á hugbúnaðarkerfi Plaio ásamt ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini. Mitt hlutverk er líka að tryggja velgengni viðskiptavina okkar, að þeir fái allt sem þeir mögulega geta út úr kerfunum okkar og séu þar með að hámarka sína skilvirkni.“

Hún ber tíma sínum hjá Deloitte góða sögu. „Ég fékk að takast á við fjölbreytt verkefni sem sneru flest að fjármálaferlum og að hjálpa fyrirtækjum að nýta fjárhagskerfin sín betur, innleiða sjálfvirkni og ýmislegt fleira. Starfið snerist því fyrst og fremst um ráðgjöf til viðskiptavina og sú reynsla sem ég öðlaðist í fyrra starfi nýtist mjög vel á nýjum slóðum. Deloitte er frábær vinnustaður og það þurfti mikið til að ég myndi færa mig um set. Aftur á móti þegar svona spennandi tækifæri bjóðast er einfaldlega ekki hægt að segja nei.“

Hildur Rún og unnusti hennar Ísak Jasonarson eru miklir Hafnfirðingar en þau hafa þó komið sér vel fyrir rétt utan sveitarfélagsins, í Urriðaholtinu í Garðabæ. Þau eiga son Jason Erik, tveggja ára, sem hún lýsir sem miklum orkubolta og gleðigjafa. Hildur Rún stendur ekki aðeins á tímamótum í starfi því fjölskyldan stendur í ströngu þessa dagana við að flytja búferlum innan hverfisins. „Ég ákvað að taka þetta allt saman bara á einu bretti og skipta um vinnu og flytja á sama tíma,“ segir hún kímin.

Hún segir fjölskylduna njóta þess að ferðast og eiga gæðastundir saman. Þá séu þau mikið íþróttafólk en bæði Hildur Rún og Ísak eru mjög liðtækir golfarar. Þau æfðu og kepptu lengi vel í golfi og eru því með betri forgjöf en margur annar áhugagolfarinn. „Við reynum að finna okkur tíma til spila golf og tókum son okkar meira að segja nokkrum sinnum með okkur að spila síðasta sumar. Honum fannst mjög gaman að koma með og það er því aldrei að vita nema golfið verði fjölskylduíþróttin. Þeir feðgar eru duglegir að fylgjast með fótbolta saman en ég er meira fyrir handboltann eftir að hafa æft hann á yngri árum. Fjölskyldur okkar beggja eru reyndar mikið handboltafólk og því mikil pressa á syninum að verða handboltamaður,“ segir hún og hlær, en bætir svo við að drengurinn fái að sjálfsögðu að ákveða sjálfur hvað hann vilji gera.