Ég kem inn með breytingarkrafti sem ríkir innan fyrirtækisins,“ segir Hulda Guðmundsdóttir, sem  sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs dk hugbúnaðar, og vísar til þess að fyrirtækið var selt til Total Specific Solutions, TSS, undir lok síðasta árs. „Hjá dk erum við sjálfstæð eining á Íslandi, en með breyttum heimi má þó segja að landamærin séu að þurrkast út og samkeppni við erlend fyrirtæki að aukast. Okkar áherslur snúa að stafrænni framtíð og að hjálpa viðskiptavinum að ná forskoti í því umhverfi.“

Hulda mun einnig koma að notendaupplifun hjá dk en þar mun reynsla hennar síðastliðin tvö ár sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Itera, sem hefur komist á lista yfir mest nýskapandi fyrirtæki Noregs, reynast dýrmæt. Þar áður stofnaði hún og eiginmaður hennar, Árni Haukur Árnason, fyrirtækið Clarito sem sérhæfði sig í stjórnun viðskiptatengsla með skýjalausnum frá Microsoft.

„Það er frábært að stofna fyrirtæki með manninum sínum, við erum mjög góðir vinir og vinnum vel saman. Það var að okkar mati þörf á þessari þekkingu og við unnum dag og nótt að koma fyrirtækinu af stað. Svo þegar vel fór að ganga þá fékk ég boð um að fara til Itera. Bæði var það spennandi tækifæri en líka ágæt breyting því við hjónin vorum nær alltaf saman á þessum skemmtilega tíma,“ segir Hulda. Clarito var á síðasta ári selt til Wise.

Hulda kom einnig að stofnun VERTOnet, samtaka kvenna í upplýsingatækni. Hún hefur á köflum verið eina konan á sínum vinnustað og því reyndist frábært að fá þarna vettvang til að kynnast öðrum konum í sömu stöðu. Hulda fagnar því að fleiri konur séu að koma inn á þetta svið og leggur áherslu á að það sé fullt af skemmtilegum tækifærum fyrir konur í tæknigeiranum.

Þá var hún meðeigandi hjá Tækninám.is, sem Sigurjón Hákonarson stýrir, en þar er boðið upp á námskeið og námsefni á íslensku um ýmis forrit og stýrikerfi. „Við vorum tilbúin með námsefni og síðuna áður en Covid hófst. Þetta náði svo flugi í faraldrinum þegar fólk fór að huga að þessari þekkingu í auknum mæli.“

Hulda, sem er nýorðin amma, er óhrædd við að prófa nýja hluti í frítíma sínum. Systir Huldu dró hana nýlega á þríþrautaræfingu og hafa þær nú sett sér markmið fyrir næsta ár. „Þetta liggur fyrir utan minn þægindahring en ég er sem dæmi afar léleg í sundi. En mér finnst þetta gaman og ég legg mig fram við að lifa lífinu lifandi.“

Nánar er rætt við Huldu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .