Hönnunar- og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hefur ráðið til sín fjóra nýja sérfræðinga; forritarana Harald Karlsson og Unu Kristínu Benediktsdóttur ásamt hönnuðunum Kristrúnu Úlfarsdóttur og Simoni Viðarssyni.

Haraldur kemur til Kolibri frá Íslandsbanka þar sem hann starfaði við þróun á ytri vef bankans, nýjum netbanka og uppbyggingu á nýju hönnunarkerfi. Hann býr að víðtækri reynslu á sviði vefþróunar og hefur starfað á vefstofum á Íslandi og í Noregi ásamt því að sinna ráðgjöf.

Una Kristín Benediktsdóttir er nýr forritari hjá Kolibri en hún lauk B.Sc. í tölvunarfræði í Háskóla Reykjavíkur árið 2012 og fór þá að vinna sem forritari hjá Nova.

Kristrún kemur til starfa sem hönnuður hjá Kolibri frá Gangverk þar sem hún starfaði sem stafrænn vöruhönnuður. Kristrún er útskrifuð úr Vefskólanum og var eftir hann í starfsnámi hjá Þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar við innleiðingu á stafrænni þjónustu.

Simon útskrifaðist árið 2020 með B.A. gráðu í grafískri hönnun úr Listaháskóla Íslands. Samhliða náminu vann hann á hönnunarstofu Kolofon og var þar í tæp þrjú ár. Eftir Kolofon hóf hann störf sem hönnuður hjá Gangverki fyrir bandaríska uppboðshúsið Sotheby's.

„Það er virkilega frábært að fá svona gott og reynslumikið fólk til starfa hjá Kolibri. Ég er mjög ánægð hve fjölbreyttar þessar nýju ráðningar eru. Simon og Kristrún eru að koma mjög sterk inn í hönnunarteymið okkar en stafræn hönnun er hjartað í Kolibri. Una og Halli eru framúrskarandi forritarar sem munu leysa stórar áskoranir og þróa stafrænar vörur og þjónustur í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Kolibri.