Fasteignaþróunarfélagið Þorpið-Vistfélag hefur ráðið tvo nýja stjórnendur með það að markmiði að halda áfram að þróa og byggja íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Guðný María Jóhannsdóttir og Áslaug Guðrúnardóttir hafa verið ráðnar til að stýra skipulags- og umhverfismálum og sölu- og markaðsmálum hjá félaginu. Báðar voru þær áður stjórnendur hjá Reykjavíkurborg.

Guðný María Jóhannsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Guðný María var sérfræðingur í atvinnu- og borgarþróun hjá Reykjavíkurborg og starfaði þar áður hjá Isavia sem forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs. Hún tekur við starfi framkvæmdastjóra skipulags- og umhverfismála.

Áslaug Guðrúnardóttir er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún var áður kynningar- og markaðsstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur og þar áður fréttamaður á RÚV. Hún tekur við starfi framkvæmdastjóra samskipta, sölu- og markaðsmála.

Þorpið Vistfélag er eitt stærsta fasteignaþróunarfélag landsins, með um 1.300 íbúðir í byggingu, hönnun og þróun í Reykjavík. Félagið er að ljúka uppbyggingu á 137 íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur við Jöfursbás í Gufunesi sem eru fyrstu íbúðirnar í þessu nýja hverfi borgarinnar.

Framkvæmdir hefjast einnig í haust á lóð félagsins við Gufunesveg í sama hverfi þar sem byggt verður fjölbýlishús með 72 íbúðum. Meðal annarra verkefna í farvatninu hjá félaginu er uppbygging hverfis í Ártúnshöfða í námunda við endastöð fyrsta áfanga Borgarlínunnar við Krossmýrartorg. Þar er félagið að hanna og þróa allt að 1.000 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis og er þetta eitt stærsta fasteignarþróunarverkefni í sögu Reykjavíkur. Þá er félagið einnig að skipuleggja búsetukjarna fyrir eldri konur á Bræðraborgarstíg 1-3.