Seven Glaciers hefur ráðið Rakel Evu Sævarsdóttur sem framkvæmdastjóra sjálfbærni á nýrri skrifstofu sinni á Íslandi.

Rakel Eva starfaði síðast sem forstöðumaður sjálfbærnimálahjá PLAY flugfélagi en hún hefur mikla reynslu af málaflokknum, segir í tilkynningu. Rakel mun hefja störf þegar hún hefur lokið fæðingarorlofi.

Seven Glaciers starfar á sviði markaðar með kolefniseiningar og veitir m.a. ráðgjöf til fyrirtækja við kolefnisjöfnun. Fyrirtækið býr nú þegar yfir tæpum tveimur milljörðum tonna af ábyrgum kolefniseiningum sem standast alþjóðlegar gæðakröfur. Enn fremur hyggst Seven Glaciers fjárfesta í ýmis konar loftslags- og samfélagslausnum á norðurslóðum.

„Ég hlakka mikið til að ganga til liðs við Seven Glaciers. Það er frábært tækifæri og mikill heiður að fá að taka þátt að byggja upp starfsemi félagsins hér á landi,“ segir Rakel Eva. „Meginverkefni Seven Glaciers er að veita fyrirtækjum og stofnunum stuðning í átt að kolefnishlutleysi, en á sama tíma ætlum við að láta til okkar taka á norðurskautssvæðinu með fjárfestingu í loftlagslausnum og samfélagslegum verkefnum, sem ég er virkilega spennt fyrir.“

Hjá PLAY bar Rakel Eva ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd stefnu málefna sem tengjast sjálfbærni og hlaut fyrirtækið nýverið verðlaun fyrir sjálfbærniskýrslu ársins frá Festu sjálfbærnimiðstöð, Viðskiptaráði og Stjórnvísi. Áður en hún hóf störf hjá PLAY starfaði hún hjá Marel sem sérfræðingur í sjálfbærni innan fiskiðnaðar. Rakel Eva var ein af upphaflegum stofnendum Fortuna Invest, sem staðið hefur fyrir aðgengilegri fræðslu um fjárfestingar á Instagram.

Seven Glaciers er bandarískt fyrirtæki stofnað árið 2021 af Hugh Short og Tara Sweeney og er með höfuðstöðvar í Alaska. Félagið leitar nú að fleiri starfsmönnum hér á landi til að styðja við sjálfbærnivegferð fyrirtækja sem starfa á norðurskautssvæðinu. Seven Glaciers hefur þegar tekið til starfa á Íslandi og vill eiga samtal við öll þau fyrirtæki og stofnanir sem leitast eftir að gera starfsemi sína kolefnishlutlausa.

Rupert Robinson, framkvæmdastjóri hjá Seven Glaciers:

„Seven Glaciers hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja fyrirtæki og stofnanir í átt að kolefnishlutleysi með því í fyrsta lagi að draga úr losun og loks kolefnisjafna losun sína. Ráðning Rakelar Evu sem framkvæmdastjóra sjálfbærni er stefnumarkandi og liður í áætlunum okkar um að vera markaðsleiðandi á alþjóðlegum kolefnismarkaði. Reynsla og þekking Rakelar Evu af því að þróa og leiða umbreytingar á sviði sjálfbærni og virkja fólk til þátttöku í slíkum breytingum mun flýta fyrir áætlunum okkar. Ég er afskaplega ánægður að hafa fengið hana til liðs við okkur.“