Faxaflóahafnir hafa ráðið Sigurð Jökul Ólafsson í stöðu markaðsstjóra og tók hann við starfinu í byrjun mánaðarins.

Sigurður Jökull starfaði um árabil í Danmörku fyrir alþjóðlega ferðaheildsala við markaðs- og sölumál ásamt viðskiptaþróun fyrir áfangastaðina Noregur, Danmörk og Ísland.

Sigurður Jökull er með MSc gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands, þar sem lokaverkefni hans var um greiningu á tækifærum í virðiskeðju íslenska sjóeldislaxins. Þar áður stundaði hann diplómanám í e-commerce við Copenhagen Business Academy í Kaupmannahöfn.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Faxaflóahöfnum sem ég hlakka til að taka þátt í. Áhrifa heimsfaraldurs gætir ekki lengur hvað varðar komur skemmtiferðaskipa og samhliða höfum við orðið vör við áherslubreytingu hjá útgerðum skemmtiferðaskipa, sem sækjast í auknum mæli eftir að stunda farþegaskipti í okkar höfnum. Enn fremur eru spennandi skref framundan í átt að grænni lausnum, þar sem ráðgert er að komið verði á landtengingu rafmagns á haustmánuðum 2022 við stærstu gámaflutningaskipin sem sigla reglulega til hafna okkar,“ er haft eftir Sigurði Jökli í tilkynningu.