„Það er margt að gerast í orkugeiranum og mjög lærdómsríkt fyrir mig, sem hafði fram til þessa unnið í fjármálageiranum, að fá tækifæri til að starfa á þessum vettvangi. Mér hefur gengið vel við að setja mig inn í nýja starfið og kynnast nýju samstarfsfólki. Það er mikill heiður að fá að vera hluti af þessu frábæra teymi,“ segir Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir, nýr viðskiptaþróunarstjóri Orku náttúrunnar (ON). Hún hóf störf um miðjan síðasta mánuð og segir það hafa verið mjög hentugan tíma til að byrja í nýja starfinu. „Á þessum árstíma eru margir orkutengdir viðburðir og það hefur hjálpað mér við að kynnast orkugeiranum nokkuð fljótt.“

Margrét segir sitt helsta hlutverk að sinna samskiptum við núverandi viðskiptavini ON og að búa til ný viðskiptasambönd á stórnotendamarkaði. „Þetta geta verið álver, gagnaver, þörungaframleiðendur, matvælaframleiðendur og ýmis önnur atvinnustarfsemi sem krefst mikillar raforku. Mín fyrri reynsla hjá Íslandsbanka nýtist mjög vel í nýja starfinu. Umræðuefnin við viðskiptavini, sem tengjast oftast fjármálum og ákveðnum verkefnum, eru á nokkuð svipuðum nótum.“

Margrét er ánægð með tíma sinn hjá Íslandsbanka. „Ég fékk að prófa að gegna mismunandi störfum innan bankans og er mjög þakklát fyrir það. Störfin voru fremur ólík og gaman að fá að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum. Stjórnendur Íslandsbanka eiga hrós skilið fyrir að gefa fólki tækifæri til að vaxa, þroskast og taka ábyrgð í sínum störfum.“

Nánar er rætt við Margréti í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.