Pétur Krogh Ólafsson hefur verið ráðinn þróunar- og viðskiptastjóri Veitna, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Pétur mun m.a. sjá um samskipti og samhæfingu áætlana milli sveitarfélaga og Veitna og mun heyra beint undir framkvæmdastýru fyrirtækisins.

Pétur hefur starfað hjá Reykjavíkurborg sem aðstoðarmaður borgarstjóra frá árinu 2014. Áður var hann bæjarfulltrúi í Kópavogi og sinnti ritstjórnar- og markaðsmálum á Skjánum. Pétur er með BA gráðu í sagnfræði og MA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna:

„Pétur kemur inn á mikilvægum tímapunkti þegar mikil uppbygging og vöxtur er fram undan ásamt þéttingu byggðar á okkar þjónustusvæðum. Þá erum við í mörgum stórum samstarfsverkefnum með sveitarfélögunum sem Veitur þjónusta. Slík verkefni krefjast mikils samstarfs og samskipta milli uppbyggingaraðila þannig að við erum mjög ánægð með að fá Pétur, sem býr yfir mikilli reynslu á þessu sviði, til liðs við okkur.“

Pétur Krogh Ólafsson:

„Með nýju starfi þróunar- og viðskiptastjóra skapast mikil og spennandi tækifæri til að nýta innviði betur og samræma áætlanir milli sveitarfélaga og Veitna. Þannig getum við nýtt tímann og þann öfluga mannauð sem Veitur búa yfir á sem áhrifaríkastan máta. Ég er ótrúlega spenntur að takast á við þessi verkefni enda eru Veitur afar framsækið fyrirtæki og alþjóðlega leiðandi á sínu sviði.“