Þetta er ótrúlega spennandi fyrirtæki og ég hlakka mikið til að takast á við verkefnin framundan," segir Sigríður Rakel Ólafsdóttir, nýr markaðsstjóri bílaumboðsins Öskju.

Sigríður segir helstu áskorunina framundan vera orkuskiptin og þær samfélagslegu breytingar sem munu, og eru að eiga sér stað. „Ef við horfum fram í tímann sjáum við stöðuga samfélagslega breytingu á því hvernig fólk notar bílinn sinn." Hún bætir við að stefna Öskju sé að verða rafbílavætt bílaumboð. „Það er framtíðarsýnin hjá okkur, varðandi umhverfismálin og orkuskiptin, að vera leiðandi í rafbílavæðingunni. Okkar bílavörumerki eru með góða framtíðarsýn í þessum efnum."

Sigríður kemur frá Ölgerðinni þar sem hún starfaði sem vörumerkjastjóri. Hún bar ábyrgð á vörumerkjum PepsiCo í snakki og gosi, til að mynda Pepsi Max, Lay's og Dorito's. „Það hefur verið mikill skóli að fá tækifæri að vinna með vörumerkjum Ölgerðarinnar. Þar vann ég með sterk erlend vörumerki og mikilvægum birgjum, reynsla og þekking sem ég tek með mér til Öskju."

Sigríður hefur búið í Reykjavík alla sína ævi og býr nú í Hlíðunum og er mikill Valsari. Hún á þrjú börn, 1 ára, 3 ára og 11 ára, og er í sambúð með Jónasi Braga vélfræðingi „Það er húsdýra- og fjölskyldugarðurinn um helgar, þegar það eru ekki fótboltamót hjá stráknum."

Henni finnst algjört lykilatriði að hreyfa sig reglulega til að losna við streitu og núllstilla sig. „Ég hef stundað Pilates reglulega og verið viðloðandi Crossfit undanfarin ár. Ég æfði handbolta á yngri árum svo hreyfing hefur alltaf verið mikilvægur hluti af minni dagsdaglegri rútínu. Ég er auk þess mikið fyrir útivist og fer á skíði á veturna."

Hún er auk þess mikill matgæðingur, að eigin sögn. „Ég hef gaman af allri eldamennsku og nýt þess að bjóða vinum og vandamönnum heim í góðan mat."

Nánar er rætt við Sigríði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .