Bryndís Kolbrún Sigurðardóttir hefur tekið við starfi stjórnanda viðskiptatengsla bókhalds- og endurskoðendaskrifstofa, Customer Success Manager (CSM), hjá dk hugbúnaði en staðan er ný hjá fyrirtækinu.

Bryndís mun bera ábyrgð á að þróa jákvæða upplifun viðskiptavina og standa vörð um samband dk hugbúnaðar við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur, að því er segir í fréttatilkynningu‏.

Bryndís mun vinna náið með sviðsstjóra þjónustu- og ráðgjafadeildar og sjá um að tryggja velgengni viðskiptavina með árangursdrifnum viðskiptatengslum.

Bryndís hóf störf hjá fyrirtækinu í ágúst á síðasta ári. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði og M.Sc í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst ásamt kennsluréttindum. Áður en Bryndís kom til liðs við dk starfaði hún við kennslu og umsjón á unglingastigi í 6 ár en einnig hefur hún reynslu af vinnu á bókhaldsstofum, þjónustu og við verkefnastjórnun.

„Ég er gífurlega spennt að takast á við ný verkefni og kynnast viðskiptavinum okkar betur. Ég hlakka til að vera í beinu sambandi við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur sem er okkar stærsti viðskiptavinahópur,“ Bryndís.

„Þessi breyting er partur af stærri heild breytinga sem munu verða hjá okkur á næstunni til að bæta þjónustustigið. Viðskiptavinir okkar, sem eru í dag yfir 7000 fyrirtæki, munu vonandi finna breytingu til góða á næstu vikum og mánuðum. Bryndís er með frábæra reynslu og þekkingu sem mun nýtast vel í þessu nýja hlutverki. Hún er skipulögð og einstaklega þjónustulunduð. Frá upphafi vega hefur dk átt í miklu og góðu samstarfi við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur. Með skilgreindu starfi viðskiptatengsla við bókhalds- og endurskoðendaskrifstofur sjáum við fram á að geta veitt upplýsingar og þjónustu við hæfi sem stuðlar að heilbrigðu viðskiptaumhverfi fyrir alla,“ segir Kristín Þorgeirsdóttir, sviðsstjóri ráðgjafar og þjónustu dk.