Ragnar Guðmundsson hefur tekið sæti í fjárfestingarráði Crowberry Capital en þetta kom fram á aðalfundi félagsins í dag. Hann tekur við af Guðmundi Hafsteinssyni sem hefur setið í ráðinu frá 2017.

Ragnar er búsettur í Kísildal og hefur starfað hjá Ebay, Zynga, CoPilot og Tophatter undanfarin 15 ár við vörustjórnun og leitt vaxtarteymi hjá þessum félögum. Ragnar er með MBA frá Boston University og er með B.S. próf í tölvunarfræði frá HR.

Fjárfestingarsjóðurinn Crowberry I hefur fjárfest í 15 tæknifyrirtækjum sem öll starfa á alþjóðamörkuðum. Aðkoma Ragnars, sem hefur djúpa reynslu af vexti tæknifyrirtækja, er því kærkomin til að styðja Crowberry við áframhaldandi uppbyggingu, að því er segir í fréttatilkynningu.