Birtinga- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur ráðið Ragnhildi Guðmundsdóttur sem birtingastjóra og mun hún veita ráðgjöf og stýra birtingum fyrir viðskiptavini Datera á innlendum miðlum auk þess að hámarka árangur þeirra með samþættingu við erlenda miðla.

Ragnhildur kemur til Datera frá Sýn þar sem hún starfaði sem viðskipta- og verkefnastjóri í auglýsingadeild síðastliðin þrjú ár. Áður stofnaði hún og rak verslanirnar Maí og Apríl skór í Garðabæ. Ragnhildur er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Datera:

„Það er mikill fengur að fá Ragnhildi inn til að stýra birtingateyminu hjá Datera en fyrirtækið hefur vaxið hratt á síðustu árum og viðskiptavinum fjölgar jafnt og þétt. Við höfum verið að styrkja birtingateymið til þess að efla þjónustu okkar og ráðning Ragnhildar er mikilvægur liður í því verkefni.“

Ragnhildur Guðmundsdóttir, birtingastjóri Datera:

„Datera hefur lagt áherslu á að veita faglega birtingaráðgjöf sem nær jafnt til hefðbundinna og stafrænna miðla, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Fjölmiðlaumhverfið hefur breyst mikið undanfarin ár og það er mikilvægt að nýta markaðsfé vel. Ég hlakka mikið til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á Datera og hámarka árangurinn af fjárfestingu í birtingum fyrir viðskiptavini okkar."

Datera er alhliða birtingahús sem sérhæfir sig í stjórnun gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf í markaðsmálum. Hjá Datera starfa nú alls 11 sérfræðingar sem sinna verkefnum á þessu sviði.