Stjórn Háskólans í Reykjavík hefur skipað dr. Ragnhildi Helgadóttur, sviðsforseta samfélagssviðs og prófessor við lagadeild, nýjan rektor Háskólans í Reykjavík. Ragnhildur tekur við stöðunni af dr. Ara Kristni Jónssyni, sem gegnt hefur stöðunni undanfarin ellefu ár.

„Ragnhildur hefur viðamikla reynslu af stjórnun í háskólastarfi og hefur um árabil verið einn fremsti vísindamaður Háskólans í Reykjavík,“ segir í fréttatilkynningu.

Hún hefur frá árinu 2019 gegnt stöðu forseta samfélagssviðs, en undir það heyra viðskiptadeild, lagadeild, sálfræðideild og íþróttadeild. Ragnhildur hefur starfað við HR frá árinu 2002, sem prófessor við lagadeild frá 2006 og hún var deildarforseti lagadeildar frá 2014 til 2019.

Hún er formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, hefur dæmt mál í Hæstarétti, héraðsdómi og í Mannréttindadómstóli Evrópu, hún sat í samninganefnd Íslands við ESB og hefur verið ad hoc formaður í nefnd um dómarastörf.

Ragnhildur hefur kennt við Háskólana í Montreal og Ottawa í Kanada, Paris II (Pantheon-Assas) í París og Toulouse Capitole í Toulouse og víðar, hún er heiðursdoktor frá Háskólanum í Bergen og hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum meðfram störfum sínum við háskólann, hér á landi og erlendis.

Ragnhildur er fædd árið 1972. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Virginíu 2004, LL.M. gráðu frá sama skóla 1999 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1997.

„Háskólinn er sterkur og hefur á að skipa frábæru starfsfólki og nemendum. Undanfarin misseri höfum við þurft að einbeita okkur að því að bjóða nemendum sem allra best nám við erfiðar aðstæður og að halda rannsóknavirkni gangandi,“ segir Ragnhildur.

„Fyrsta hlutverk mitt verður að tryggja að starfsemi háskólans verði sem eðlilegust að nýju, að við náum að fókusera meira á alþjóðatengsl í námi og rannsóknum, tengsl við samfélagið utan háskólans og nýsköpun, eins og við erum vön. Ég tek við afskaplega góðu búi og það verður mjög spennandi og gaman að vinna áfram á þeim grunni og tryggja að HR haldi áfram að þróast í takti við örar breytingar á þörfum samfélagsins.“

Ari Kristinn Jónsson, fráfarandi rektor, segir það hafa verið einstaklega gefandi að leiða frábæran hóp starfsfólks í uppbyggingu HR undanfarin ellefu ár, stundum á krefjandi tímum, og sjá hann vaxa og dafna og komast í röð fremstu rannsóknaháskóla í heiminum.

„Á sama tíma hafa umfang og gæði námsins vaxið jafnt og þétt, og háskólinn náð góðum fjárhagslegum stöðugleika. Nú kalla önnur spennandi verkefni en ég mun áfram halda góðum tengslum við háskólann,“ segir Ari.