Rebekka Líf Albertsdóttir og Karen Sigurlaugsdóttir hafa slegist í hóp starfsmanna Hér & Nú. Gengið var frá ráðningu þeirra fyrir skemmstu. Rebekka Líf bætist í teymi grafískra hönnuða fyrirtækisins og Karen mun gegna nýrri stöðu birtingaráðgjafa.

Rebekka hóf feril sinn á Morgunblaðinu árið 2010, þar sem hún sinnti umbroti, grafískri vinnslu og myndvinnslu. Rebekka hefur einnig starfað á Íslensku auglýsingastofunni og Expo auglýsingastofu. Síðast starfaði Rebekka á Fréttablaðinu á árunum 2016 til 2022. Ásamt því að hafa lokið BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands er Rebekka með diplómu í ljósmyndun og sveinspróf í prentsmíðum frá Tækniskólanum.

Karen hefur áður starfað við markaðsmál erlendis, meðal annars hjá LVMH í Svíþjóð sem og Generation Mobility í Noregi. Síðast starfaði Karen hjá VORAR auglýsingastofu sem verkefnastjóri stafrænna miðla, en þar áður gegndi hún starfi viðskipta- og samfélagsmiðlastjóra hjá Hvíta húsinu. Karen er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í markaðsfræði frá Stokkhólmsháskóla.

Sjá einnig: H:N Markaðssamskipti verða Hér & nú

Hjá Hér & nú starfa nú tæplega 30 starfsmenn, bæði í höfuðstöðvunum í Bankastrætinu og útibúi fyrirtækisins í Brighton á Englandi. Auglýsingastofan hét áður H:N Markaðssamskipti.