María Heimisdóttir hefur sagt upp sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands en hún tilkynnti starfsfólki stofnunarinnar þetta í morgun. Í bréfi til starfsfólks segist María, sem hefur gegnt stöðunni í fjögur ár, ekki geta borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga vegna vanfjármögnunar.

„Það hefur [...] ekki tekist að styrkja rekstrargrundvöll hennar til að ná ásættanlegum árangri – að við getum rækt lögboðnar skyldur okkar með sóma og boðið samkeppnishæf laun. Við þessar aðstæður treysti ég mér því miður ekki til að bera ábyrgð á okkar mikilvægu verkefnum,“ segir María í bréfinu, sem Stundin hefur undir höndum.

Hún tók einnig fram í bréfinu að fjárveitingar til stofnunarinnar á föstu verðlagi hafi lækkað frá árinu 2018, árinu sem hún hóf störf. María var skipuð forstjóri Sjúkratrygginga til fimm ára í loks árs 2018. Hún starfaði þar áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs á Landspítala frá árinu 2010.

María upplýsti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um ákvörðun sína á miðvikudaginn síðasta.